Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld að mikilvægt væri að allir áttuðu sig á því að lántaka sú, sem mælt var fyrir á Alþingi fyrr í dag, væri ekki hugsuð til þess að fjármagna rekstur ríkisins eða framkvæmdir á þess vegum heldur til að treysta gjaldeyrisforða þjóðarinnar, varasjóð landsmanna.

Geir vísaði þarna til frumvarps um að ríkissjóði verði heimilt að taka allt að 500 milljarða króna lán á árinu.

Almennar stjórnmálaumræður fara nú fram á Alþingi. Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks Vinstri grænna, tók fyrstur til máls. Hann sagði að ríkisstjórnin hefði ekki setið í eitt ár - heldur sofið. Hann sagði að risavaxnar lántökur, án nauðsynlegs uppskurðar í efnahags- og fjármálakerfinu, væri ráðstöfun sem lítið hjálpaði. Gæti jafnvel verið varasöm yrði ekkert að gert.

"Hið skynsamlega er að skipta upp bönkunum í þann hluta sem þjónar íslensku atvinnulífi og hinn sem er að gambla á erlendum mörkuðum," sagði hann meðal annars.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að ríkisstjórnin væri stjórn brostinna vona. Hún væri daufgerð, verklítil og talaði auk þess út og suður.  Fyrir utan síðbúnar aðgerðir Seðlabankans hefði ríkisstjórnin í engu brugðist við vandanum í efnahagsmálum.