Ríkisstjórnin ætlar að grípa til aðgerða til þess að blása lífi í kaldan fasteignamarkað og stuðla að því að þeir sem ætla að kaupa íbúðir geti fengið lánsfjármagn.Markmiðið er auk þess að liðka fyrir fyrirtækjum á byggingamarkaði og auka lausafjárstöðu bankanna. Að auki er um að ræða viðbótarútgáfu stuttra ríkisbréfa á innlendum markaði.

Þetta kom fram á blaðamannafundi með fjórum ráðherrum ríkisstjórnarinnar, sem höfðu nýlokið samráðsfundi með aðilum vinnumarkaðarins og sveitarfélaganna.

Mikilvæg aðgerð svo að fasteignamarkaður frjósi ekki

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði þessar aðgerðir mikilvægan þátt í því að fasteignamarkaðurinn frysi ekki, svo að fólk gæti skipti um húsnæði, eins og eðlilegt væri.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði að því hefði verið haldið fram að ríkisstjórnin aðhæfist ekkert í efnahagsmálum. „Það er alrangt,“ sagði hann.

Íbúðarlánasjóður lánar hærri upphæðir

Íbúðalánasjóður mun hverfa frá því að miða lánsfjárhæðina við 80% af brunabótamati og horfa þess í stað til kaupverðs. Einnig verður hámark lánsfjárhæðar hækkað í 20 milljónir króna úr 18 milljónum.

Stofnaðir verða tveir nýir lánaflokkar hjá Íbúðalánasjóði. Annar flokkurinn varðar lánveitingar til fjármálafyrirtækja til endurfjármögnunar á íbúðalánum sem þau hafa þegar veitt gegn veði í íbúðarhúsnæði. Hinn flokkurinn á að fjármagna ný íbúðalán þessara fjármálafyrirtækja. Það verður gert með veði í safni fasteignaverðbréfa sem þau eiga.

„Það mun þýða að rýmkast mun um lausafjárstöðu fjármálastofnana sem við væntum að muni leiða til þess að þær verði betur í stakk búnar til að sinna þörfum atvinnulífsins og almennings varðandi lánsfé,“ sagði Geir.

Ríkisbréf fyrir allt að 75 milljarða

Að auki er um að ræða viðbótarútgáfu stuttra ríkisbréfa á innlendum markaði. „[Það er] gert til þess að draga úr þrýstingi á skuldabréfa- og gjaldeyrismarkaðnum,“ sagði Geir. Nýtt er heimild sem Alþingi veitti fyrir skömmu til þess að gefa út ný bréf fyrir allt að 75 milljarða króna.

Árni Mathiesen fjármálaráðherra sagði að þessi aðgerð myndi auka viðskipti með krónu.