„Það var viðbúið og löngu fyrirséð að gengi íslensku krónunnar myndi lækka þegar um hægðist í þjóðarbúskapnum, ekki síst í ljósi þess að gengi hennar hefur almennt verið talið of hátt um nokkurt skeið miðað við efnahagsaðstæður. Lækkun á gengi krónunnar að undanförnu er þó úr takti við væntingar og á sér aðrar skýringar. Þótt hún leiði óhjákvæmilega tímabundið til meiri verðbólgu, tel ég að gengið muni finna nýtt jafnvægi þegar um hægist á alþjóðlegum fjármálamörkuðuðm og mesta óvissan verður að baki,“ sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra í ávarpi sínu á ársfundi Seðlabanka Ísland rétt í þessu. Hann sagði að aðgerðir Seðlabankans síðastliðinn þriðjudag flýta fyrir því að krónan leiti nýs jafnvægis.

Þá sagði hann neikvæða umfjöllun um íslensk efnahagsmál hafa komið ríkisstjórninni í opna skjöldu.

„Þegar horft er á staðreyndir í efnahagslífi okkar kemur í ljós að öllum hagtölum og hagspám ber í meginatriðum saman um að horfurnar séu góðar, staða efnahagsmála sé í meginatriðum sterk og staða bankanna traust. Þetta hefur verið rækilega staðfest af þekktum erlendum fræðimönnum,“ sagði Geir.