Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, kvaddi sér hljóðs á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í morgun og lýsti því yfir að sér hefði fundist ummæli Davíðs Oddssonar í garð Vilhjálms Egilssonar ómakleg og óverðskuldug.

Geir kvaðst hafa beðið Vilhjálm um að taka að sér formennsku í endurreisnarnefndinni. Þeirri vinnu hefði hann skilað með sérstakri prýði. Geir sagði enn fremur að mikill fjöldi fólks hefði lagt hart að sér í starfi nefndarinnar. Landsfundur hefði þegar þakkað því fólki fyrir og samþykkt tillögur nefndarinnar að ályktun flokksins um endurreisn atvinnulífsins.

Geir bað fundarmenn um að láta heyra hvort þeir væru sér sammála í þessum efnum og klöppuðu þeir því næst og margir hverjir risu jafnframt úr sætum.

Geir gaf Vilhjálmi sín bestu meðmæli

Geir sagði að Vilhjálmur Egilsson hefði verið ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins af stjórn samtakanna.

„Ég get upplýst að formaður stjórnarinnar okkar ágæti félagi Ingimundur Sigurpálsson, sem ég hygg að sé hér landsfundarfulltrúi, leitaði til mín og ég gaf Vilhjálmi mín bestu meðmæli. Hann var þá ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu. Áður var hann einn af stjórnarmönnum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum samkvæmt sérstakri ósk þáverandi forsætisráðherra á árinu 2003 vegna sérstakra vandamála sem upp komu á þeim tíma."

Fyrir það hefði hann verið einn af öflugustu og ötullustu þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í tólf ár.

„Við Vilhjálmur höfum verið vinir og samstarfsmenn í mörg ár. Ég veit hvers hann er megnugur og þess vegna var það ég sem leitaði til hans og bað hann um að taka að sér þetta endurreisnarstarf og formennsku í þeirri nefnd sem hann skilaði með sérstakri prýði eins og við vitum öll."

Ítrekaði þakkir til nefndarinnar

Geir ítrekaði enn fremur þakkir sínar til þeirra sem unnið hefðu fyrir endurreisnarnefndina.  „Ég vil ítreka þakkir mínar til alls þessa fólks. Ég hygg að þó það sé þannig að í skýrslunni sé áreiðanlega margt sem við skrifum ekki öll undir þá liggur fyrir samþykkt ályktun af hálfu landsfundarins um þetta mál."

Hann bað fundarmenn um að ítreka þá afgreiðslu og fékk fyrir það lófaklapp fundargesta.