„Ég hef varið mörgum árum í störf á vettvangi stjórnmála og kynnst þar mörgu fólki. En ég hef ekki átt því að venjast að mér sé vísvitandi sagt ósatt um mikilvæg mál hvað þá að málsmetandi ábyrgðarmenn stórra fyrirtækja geri sig seka um slíkt gagnvart forsætisráðherra. Slíku hafði ég ekki kynnst fyrr en í aðdraganda bankahrunsins og gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en eftir á. Erfitt er að þurfa að sætta sig við slíka framkomu," segir Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra í bréfi til þingmannanefndarinnar.

Geir fjallar eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í bréfi sínu um upplýsingar sem hafa birst opinberlega undanfarið í tengslum við vinnslu mála hjá slitastjórnum bankanna og sakamálarannsóknir á vegum sérstaks saksóknara varðandi hugsanleg lögbrot innan eða á vegum bankanna.

Vísbending um umfangsmikla brotastarfsemi

„Þótt þau mál hafi ekki enn verið til lykta leidd gefa þau vísbendingu um að umfangsmikil brotastarfsemi hafi átt sér stað innan fjármálageirans og víðar í viðskiptalífinu, sem yfirvöldum og þá sérstaklega forystumönnum í stjórnmálum var með öllu ókunnugut um. Virðist nú blasa við að veiking bankanna innan frá hafi ekki verið minna vandamál en stærð þeirra í hlutfalli við efnahag þjóðarinnar. Það segir sig sjálft að ráðamenn hefðu ekki reynt að liðsinna fjármálafyrirtækjunum með þeim hætti sem gert var hefðu þeir haft grun um að innan þeirra ætti sér stað athæfi sem ekki þyldi dagsins ljós," skrifar Geir.

Gagnrýnir endurskoðendur

Í bréfinu víkur hann líka að ábyrgð endurskoðenda. „Ennfremur blasir við að ábyrgð þeirra sem gengu frá og endurskoðuðu reikninga bankanna síðustu ár og ársfjórðunga fyrir fall þeirra er mikil því á hinu endurskoðaða uppgjöri byggðist mat fjölmargra á stöðu bankanna, þ.á.m. ráðamanna í stjórnmálum og lánadrottna," skrifar Geir.