Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði við Jean-Claude Juncker forsætisráðherra Lúxemborgar á fundi þeirra í Lúxemborg í morgun að ekki stæði til að Íslendingar tækju einhliða upp evru.

Forsætisráðherrarnir sögðu á blaðamannafundi sem nú stendur yfir í forsætisráðuneytinu í Lúxemborg að fundur þeirra hefði verið ánægjulegur og að samstarf þjóðanna væri gott.

Geir sagði að Juncker hefði spurt hvort Íslendingar hygðust taka einhliða upp evru. Hann hefði heyrt umræðu um það. Geir sagðist hafa svarað: „Nei." Þá hefði Juncker fagnað því og sagt að slíkt skapaði mörg vandamál.

Styðja Ísland ef Ísland kemst í aðra umferð

Þegar Juncker var spurður hvort Lúxemborg styddi Íslendinga í framboði sínu til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna svaraði hann því til að Lúxemborg hefði lýst yfir stuðningi við Austurríki og Tyrkland en ef Ísland kæmist í aðra umferð styddi Lúxemborg Ísland.

Fundur forsætisráðherranna stóð yfir í um það bil hálftíma.