Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á fjölmennum fundi sjálfstæðismanna sem nú fer fram á Grand hóteli í Reykjavík, að Samfylkingin hefði sprungið á limminu.

Samfylkingin hefði bugast í erfiðleikunum og látið undan þrýstingi, meðal annars frá götum borgarinnar, um að ríkisstjórnin færi frá. „Það að er nú reyndar ekki mjög merkileg framkoma að gefast upp fyrir því, en það verður að horfast í augu við að Samfylkingin er ekki einn stjórnmálaflokkur."

Hún væri, sagði hann, eins og nafnið benti til fylkingar ýmissa hópa sem væru í grunninn ósamstæðir. Þegar formaður flokksins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefði þurft að vera frá vegna veikinda sinna hefðu önnur öfl í flokknum gengið á lagið. Í raun hefði flokksfélag Samfylkingarinnar í Reykjavík slitið stjórnarsamstarfinu í síðustu viku fyrir hönd formannsins.

Um sex til sjö hundruð sjálfstæðismenn sitja fundinn sem nú stendur yfir. Fundarmenn hylltu Geir í upphafi fundar með sterku lófaklappi og risu úr sætum.

Geir hefur í ræðu sinni farið yfir aðdragandann að stjórnarslitunum. Hann nefndi þar meðal annars að Samfylkingin hefði, þegar kæmi að Seðlabankanum, látið stjórnast af ótrúlega miklu hatri á einum manni. „Það virðist hafa haft úrslitaáhrif á afstöðu þeirra til skipulagsbreytinga í stjórnkerfinu," sagði hann og bætti því við að það væri ekki góð ástæða til að endurskipuleggja í stjórnkerfinu á Íslandi.

Samfylking lagði fram fjögur atriði

Hann sagði að viðræður sjálfstæðismanna og Samfylkingar á heimili sínu sl. sunnudag hefðu verið sýndarviðræður. Þegar Ingibjörg Sólrún hefði komið til landsins sl. föstudag hefði sú stjórn, sem nú lægi í loftinu, verið mun lengra á veg komin heldur en gefið hefði verið í skyn í viðræðunum á sunnudag.

Hann sagði að í viðræðunum hefði Samfylkingin nefnt fjögur atriði sem áherslu þyrfti að leggja á, á komandi mánuðum, en ekki tíu eins og fram hefði komið í Morgunblaðinu.

Fyrsta atriðið hefði verið áframhaldandi samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Annað atriðið hefði verið um stjórnarskrárbreytingar, þriðja atriðið hefði verið um tiltekt í Seðlabankanum og fjórða atriðið um aðgerðir í þágu heimilanna.

Á síðustu stundu hefði Samfylkingin bætt við fimmta atriðinu um að hún fengi forsætisráðuneytið eða verkstjórnina, eins og hún hefði orðað það.