Að baki vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands liggur samkomulag ríkisstjórnar og Seðlabankans við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Þetta sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra í umræðum á Alþingi í dag.

Hann svaraði þar fyrirspurn Valgerðar Sverrisdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins, þar sem hún spurði út í stýrivaxtahækkunina og gagnrýndi jafnframt misvísandi skilaboð um hana frá stjórnvöldum og Seðlabankanum.

„Að baki þessari ákvörðun [stýrivaxtahækkun] liggur samkomulag sem gert hefur verið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að tryggja fyrirgreiðslu á hans vegum. Það liggur fyrir samkomulag þriggja aðila," upplýsti Geir og bætti við að samkomulagið yrði undirritað af ríkisstjórn og SÍ þegar bréfið færi héðan vestur um haf.

„Mótaðilinn, sjóðurinn, á eftir að afgreiða þetta formlega á sínum vettvangi," bætti hann enn fremur við.

Gert er ráð fyrir að sjóðurinn fjalli um málefni Íslands eftir helgi.

Maður í bankanum sem lætur ekki berja á sér

Valgerður gerði að umtalsefni í upphafi máls síns athugasemd Seðlabanka Íslands frá því í gær.

„Þar kemur fram að sú ákvörðun sem tekin var um stýrivaxtahækkun um sex prósentustig sé í raun ekki tekin af Seðlabankanum heldur af alþjóðlegri stofnun í samstarfi við ríkisstjórnina."

Valgerður spurði Geir í framhaldinu hvort þetta þýddi þar með að Seðlabankinn væri ekki lengur sjálfstæð stofnun sem tæki eigin ákvarðanir um hækkanir og lækkanir stýrivaxta. Og hvort þar með hefði ekki þurft að breyta lögum um Seðlabankann áður en stýrivaxtahækkunin var kynnt.

Geir svaraði því til að hann teldi svo ekki vera, þ.e.a.s ekki hefði þurft að breyta lögum um bankann.

„Það er bankinn sjálfur sem formlega tekur þessa ákvörðun [að hækka stýrivexti] lögum samkvæmt og kynnir hana enda eru þetta vextir í viðskiptum við aðra banka."

Valgerður sagði er hún kom upp í annað sinn, vegna þessarar umræðu, að í Seðlabankanum stjórnaði maður sem léti ekki berja á sér. Honum hefði hins vegar fundist það í gær. Því hefði hann svarað fullum hálsi. „Sem er óþolandi," bætti Valgerður við og hélt áfram: „Sem segir okkur líka að það þarf að gera breytingar í Seðlabankanum."