Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, segir í yfirlýsingu að hann hafi samþykkt að tekið skyldi við greiðslu frá FL Group í desember 2006 upp á 30 milljónir króna „enda fylgdi henni sú skýring að hér væri um að ræða framlag margra aðila sem umrætt fyrirtæki sæi um að koma til skila," segir hann í yfirlýsingunni.

Hann beri því einn alla ábyrgð á þessu máli.

Í sama mánuði og hann samþykkti greiðsluna mælti hann fyrir frumvarpi á Alþingi um að stjórnmálaflokkum verði ekki heimilt að taka við hærri styrkjum en 300 þúsund krónur á ári frá einstökum lögaðilum. Lögin tóku gildi 1. janúar 2007.

Yfirlýsing Geirs H. Haarde er svohljóðandi:

„Með vitund og vilja mínum var haustið 2006 ráðist í mikið átak til að rétta við fjárhag Sjálfstæðisflokksins í samræmi við þær reglur um fjármál stjórnmálaflokka sem þá var unnid eftir. Komu þar fjölmargir að verki.

Á sama tíma var ég fyrsti flutningsmaður frumvarps til nýrra laga um fjármál flokkanna sem tóku gildi 1. janúar 2007. Eitt framlag til flokksins frá þessum tíma hefur að undanförnu verið sérstaklega til umfjöllunar, þ.e.a.s. framlag frá FL-Group seint í desember 2006.

Núverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, sem þá var nýkominn til starfa, hafði ekki frumkvæði eða sérstakan atbeina að þessari greiðslu.  Ég samþykkti að vid henni skyldi tekið, enda fylgdi henni sú skýring að hér væri um að ræða framlag margra aðila sem umrætt fyrirtæki sæi um að koma til skila.

Ég ber því sem formaður flokksins á þeim tíma einn alla ábyrgð á þessu máli.  Sama er að segja um hátt framlag frá Landsbanka Íslands frá sama tíma. Framkvæmdastjórar flokksins, núverandi og fyrrverandi, bera hér enga ábyrgð."

Geir H. Haarde sendi frá sér tvær samsvarandi yfirlýsingar vegna málsins á sjöunda tímanum í kvöld. Í þeirri fyrri var ekki getið um styrkinn frá Landsbankanum en búið var að bæta honum við í hinni síðari - í lokamálsgreinina.