„Seðlabankinn er ekki að fara í þrot með sama hætti og viðskiptabankarnir gerðu," sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra í umræðum á Alþingi í morgun.

Hann giskaði á að bankinn hefði tapað í kringum 150 milljörðum króna vegna veðlánaviðskipta sinna við viðskiptabanka og sparisjóði. Eigið fé væri 90 milljarðar. Ríkissjóður þyrfti að leggja fé inn í bankann.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í umræðunum að óhjákvæmilegt væri að bankastjórn Seðlabankans axlaði ábyrgð á þessu tapi.

„Ekki vegna þess að þar séu einhverjir vondir menn heldur vegna þess að okkur hefur mistekist við stjórnun landsins og verðum að axla ábyrgð á þeim mistökum. Við verðum að endurskipuleggja þá starfsemi sem á okkar ábyrgð er."

Bankinn hafi ekki gerst sekur um afglöp

Helgi sagði að fjórir af fimm stjórnmálaflokkum á Alþingi hefðu lýst því yfir í skýrri stefnu að fagleg yfirstjórn ætti að vera yfir Seðlabankanum. Hann spurði forsætisráðherra hvort það ætti ekki - að minnsta kosti - að vera efni til umhugsunar.

Geir H. Haarde svaraði því til að ekki væri um það að ræða að bankinn hefði gert sig sekan um einhver sérstök afglöp.

„Bankinn var að reyna að hjálpa bankakerfinu í landinu í gegnum kreppuna með lausafjárfyrirgreiðslu eins og allir aðrir seðlabankar hafa verið að gera - og lá undir ámælum fyrri part ársins fyrir að hafa ekki gert nógu mikið í þeim efnum[...]."