Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í Silfri Egils í dag að æskilægt væri að niðurstaða í málefnum borgarstjórnarhóps sjálfstæðismanna lægi fyrir í næstu viku.  Hann kvaðst reyndar eiga von á því að svo yrði. „Ég myndi segja að ákvörðun um þetta myndi liggja fyrir innan viku," sagði hann.

Geir sagði að hann myndi styðja þá niðurstöðu sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna, kæmist að. Hann sagði enn fremur að hann teldi að niðurstaða Vilhjálms yrði með hagsmuni Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og borgarbúa að leiðarljósi.

Geir sagði aðspurður að ástandið í borginni hefði skaðað Sjálfstæðisflokkinn til skamms tíma. Flokkurinn hefði hins vegar burði til þess að vinna sig upp úr því.

Þá sagði hann að borgarfulltrúarnir yrðu að standa þétt saman um hvern þann sem yrði oddviti hópsins í Reykjavík út kjörtímabilið.