Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segist draga í efa að markaðurinn með skuldatryggingar sé áreiðanlegur mælikvarði á getu fyrirtækja og ríkja til þess að standa undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum.

Í því samhengi bendir Geir á skuldatryggingaálag íslenska ríkisins, og lýsir því sem „fáránlegu”.

Þetta kemur fram í viðtali Dow Jones-fréttaveitunnar við Geir.

Fram kemur í frétt Dow Jones að skuldatryggingaálag íslenska ríkisins hafi hækkað um 105 punkta á aðeins einum mánuði og standi nú í 267 punktum.

Á sama tíma fyrir ári var álagið hins vegar sex punktar. Einn punktur á tryggingu sem ver skuld að upphæð 10 milljónir Bandaríkjadala í fimm ár samsvarar eitt þúsund dölum.

„Ég horfi á skuldatryggingaálag íslenska ríkisins, sem [...] er nánast skuldlaust og möguleikinn á því að ríkið geti ekki staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar eru nánast engar að mínu viti og að gefa eitthvað annað til kynna er fjarstæðukennt,” segir Geir.

Geir varði einnig stöðu íslensku viðskiptabankanna, sem hann sagði að væru í „engum skilningi gjaldþrota” og að stjórnvöld hefðu hingað til ekki talið þörf á neinum sérstökum aðgerðum að þeirra hálfu.

Í viðtalinu við Dow Jones lagði forsætisráðherrann áherslu á að íslensku bankarnir stæðu frammi fyrir sambærilegum erfiðleikum og aðrir bankar á alþjóðamörkuðum vegna lánsfjárkreppunnar. Hann sagðist trúa því að bankarnir stæðu „örugglega” nægjanlega sterkt að vígi til að „standa af sér umrótið” á mörkuðum.

„Allir grunnþættir í rekstri bankanna eru öflugir, hvort sem horft er til lausa- eða eiginfjárstöðu, arðsemi eiginfjár og annarra þátta sem venjulega skipta máli ”í fjármálakrísu eins og þessari, sagði Geir.

Í frétt Dow Jones er sagt frá aðgerðum íslensku ríkisstjórnarinnar í liðinni viku til að blása lífi í frosinn fasteignamarkað og viðbótarútgáfu stuttra ríkisbréfa á innlendum markaði.

Geir segir að stjórnvöld séu reiðubúinn að grípa til frekari aðgerða ef nauðsynleg sé í því samhengi. Breytingarnar í tengslum við „Íbúðarlánasjóð væru fyrsta skrefið af mörgum sem við þurfum að taka, í því augnamiði að gera umbætur á þessu kerfi.”