Geir H. Haarde, forsætisráðherra segir sögusagnir um að ríkissjóður geti ekki staðið við skuldbindingar sínar vera „út í hött.“

Geir segir að viðskiptahalli sé að minnka og íslensku bankarnir standi stöðugir. Þetta sagði Geir í Svíðþjóð í dag en Bloomberg fréttaveitan greinir frá þessu.

„Undirstöður okkar eru sterkar, bæði hvað varðar efnahagslífið sem og bankana,“ hefur fréttaveitan eftir forsætisráðherra. Þá sagði hann ljóst að til væru menn sem hefðu reynt að hagnast á kostnað Íslands.

Geir segir jafnframt að skuldatryggingarálag íslenska ríkisins sýni ekki rétta mynd af stöðu mála. „Ríkissjóður skuldar nánast ekki neitt og engum heilvita manni dettur í hug að ríkið geti ekki greitt til baka skuldir sínar,“ sagði Geir.

Í frétt Bloomberg kemur fram að rannsókn sé hafin á vegum Fjármálaeftirlitsins vegna gruns um að vogunarsjóðir hafi með skipulögðum hætti gert atlögu að íslensku efnahagslífi. Bloomberg segir frá grun um að „óprúttnir aðilar“ hafi unnið með fyrrgreindum hætti og vitnar þar í orð seðlabankastjóra.

Ríkissjóður þarf ekki að bjarga bönkunum

Þá er greint frá því að vangaveltur séu  uppi um að íslenska ríkið kunni að bjarga bönkunum komi hér upp sú staða. Geir segir að engin þörf verði fyrir aðkomu ríkissjóðs að því að bjarga bönkunum.

„Við myndum engu að síður,“ sagði Geir „gera það sem allar ábyrgar ríkisstjórnir gera. Við getum ef við viljum farið út í slíkar aðgerðir.“

Þá segir hann að til standi að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans. „Við munum þurfa að auka gjaldeyrisforðann en ég get ekki nefnt neina tölur. Þetta er eitthvað sem við erum að skoða núna,“ sagði Geir.

Hér má sjá frétt Bloomberg.