Geir Haarde, forsætisráðherra, hefur sent 450 stærstu fyrirtækjum landsins spurningalista þar sem óskað er svara og innleggs í vinnu ríkisstjórnarinnar vegna hins alvarlega ástands í efnahagslífinu sem nú ríkir.

Í bréfinu segir: „Í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin í íslensku efnahagslífi vill ríkisstjórn Íslands kanna fjárhagslega stöðu fyrirtækja. Niðurstöður könnunarinnar verða nýttar sem innlegg í þá vinnu sem nú er í gangi til hjálpar atvinnulífinu."

Fyrirtækin eru meðal annars spurð um úrræði sem þau vilja að gripið sé til í efnahagsmálum. Eins eru þau spurð um hvort þau hyggist grípa til uppsagna og þá í hvaða mæli.

Mörgum fyrirtækjastjórnanda brá í brún þegar spurningarnar voru skoðaðar því þar er meðal annars spurt um það hvort menn geti borgað út laun um næstu mánaðamót og hve miklar líkur menn telja á gjaldþroti.

Capacent Gallup sér um gerð og framkvæmd könnunarinnar. Tekið er fram að farið verður með öll svör sem trúnaðarmál og mun Capacent Gallup annast alla gagnavinnslu og tryggja nafnleynd og að ekki verði á nokkurn hátt hægt að rekja svör til einstaklinga eða einstakra fyrirtækja.

Í bréfi sem forsætisráðherra undirritar er ítrekað að mikilvægt sé að allir svari til að niðurstöður verði sem nákvæmastar.