Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði að mikill hagvöxtur ásamt velheppnaðri einkavæðingu hefði skilað sér í góðri afkomu ríkissjóðs sem meðal annars hefur verið nýtt til að greiða niður skuldir.

Þá sagði hann að íslensk stjórnvöld hefðu bolmagn til að grípa til aðgerða komi upp alvarlega staða í bankakerfinu.

„Hreinar skuldir ríkissjóðs eru nú litlar sem engar og geta fá vestræn ríki státað af slíkri stöðu. Það þýðir að ríkissjóður hefur mikinn fjárhagslegan styrk og getur tekið að láni verulegar fjárhæðir ef á þarf að halda.

Það er því engum vafa undirorpið að ríkissjóður og Seðlabankinn gætu hlaupið undir bagga ef upp kæmi alvarleg staða í bankakerfinu.

Ég hef ítrekað verið spurður um þetta af erlendum aðilum á liðnum vikum og hef ávallt svarað því til að íslensk stjórnvöld muni við slíkar aðstæður hiklaust grípa til sömu aðgerða og ábyrg stjórnvöld annars staðar. Þetta vil ég árétta nú,“ sagði Geir í ávarpi sínu á ársfundi Seðlabankans fyrir stundu.