Geir H. Haarde, forsætisráðherra segir í samtali við Bloomberg fréttaveituna að stærð íslenska bankakerfisins sé íhugunarefni.

Þetta sagði hann í samtali við fréttaveituna á leiðtogafundi Eystrasaltsríkja í Riga í gær en Bloomberg gerir hraðan vöxt íslensku bankanna að umfjöllunarefni sínu í dag. Fjallað er um hvernig bankarnir hafi á undanförnum árum stækkað mjög hratt af erlendu lánsfé og séu nú nífalt stærri en íslenska þjóðarframleiðslan.

Sem dæmi er sagt að að Kaupþing hafi vaxið 17-falt frá árinu 2001. Einnig er greint frá breyttum reglum Seðlabankans um erlendan gjaldeyri frá því í gær.

„Bankarnir munu líka þurfa að líta í eigin barm,“ sagði Geir en í frétt Bloomberg.

Geir segist bjartsýnn á að íslenskt efnahagslíf  komist hjá þeim samdrætti sem bæði fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn hafa spáð undanfarin misserir.

„Ég er ekki viss um að hér verði neikvæður hagvöxtur,“ sagði Geir og bætti því við að eitt að meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar sé að koma í veg fyrir að samdráttur eigi sér stað.

Þá segist Geir aðspurður bjartsýnn á að krónan sé líklegri til að styrkjast en hitt.

Jákvæður og bjartsýnn

Í frétt Bloomberg er einnig greint frá því að ríkisstjórnin hafi nú heimild til að taka erlent lán upp á allt að 500 milljarða.

„Við þurfum að vera vakandi yfir því hvað efnahagskerfið í dag er opið og þeirri staðreynd að við erum þátttakendur á alþjóðlegum mörkuðum, við þurfum að eiga sjóð sem samræmist efnahagskerfi okkar og þá sérstaklega með tilliti til stærðar bankakerfisins,“ sagði Geir.

„Það getur verið gott að efnahagskerfið hægi aðeins á sér og nái andanum eftir mikinn jákvæðan vöxt síðustu ára,“ sagði Geir. „Verðbólgan mun fara hratt niður, eins og hún gerir venjulega. Ég er frekar jákvæður og bjartsýnn.“

Hér má sjá frétt Bloomberg.