Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að það sé mikilvægt, við núverandi aðstæður í efnahagsmálum, að fólk gangi ekki með þær grillur í höfðinu að hægt sé að leysa vandann með einhverjum örþrifaráðum upp á hvern dag. Hann vísar á bug fullyrðingum stjórnarandstöðunnar og bloggara um aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.

„Þetta svokallaða aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar sem stjórnarandstaðan og hinir og þessir á blogginu tala um er nú meðal annars að bera þann ávöxt að vöruskiptajöfnuðurinn í síðasta mánuði var jákvæður og við fáum mjög fína umsögn frá Financial Times vegna afkomu bankanna,“ sagði Geir í samtali við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

„Hagkerfið okkar hefur mikla aðlögunarhæfni og það er fljótt að snúa sér við þegar aðstæður breytast,“ sagði Geir enn fremur.

Meginverkefnið að koma í veg fyrir stórfellt atvinnuleysi

Geir sagði aðspurður að hann hefði margsagt að eitt af stóru viðfangsefnunum væri að koma í veg fyrir stórfellt atvinnuleysi með haustinu. „Fyrirtæki eru að segja upp fólki, vissulega, og það er miður. Einhverjir hafa reist sér hurðarás um öxl í sambandi við fjárfestingar. Það er líka ljóst. En það verða allir að hjálpast að við að reyna að greiða götur þessa fólks sem lendir í uppsögnum og missir vinnuna. Þar reynir fyrst og fremst á stéttarfélögin og samtök sem viðkomandi starfsfólk á aðild að.“

Geir bendir hins vegar á að vanskil séu ekki orðin gríðarlega mikil hjá einstaklingum. Sem betur fer, segir hann. „Það virðist vera að fólk leggi kapp á að standa í skilum og þannig á það auðvitað að vera.“