Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í Silfri Egils í dag að hann vildi lækka skatta á fyrirtæki niður í 15%. Ekki kom hins vegar fram hvenær slík lækkun ætti að ganga í gildi.

Geir ræddi meðal annars þátt ríkisstjórnarinnar í kjarasamningsgerðinni. Búist er við því að ríkisstjórnin kynni aðkomu sína að henni í dag. Þar mun hún meðal annars kynna tillögur sínar í skattamálum.

Ein þeirra snýr að lækkun skatta á fyrirtæki. Ríkisstjórnin segist í stjórnarsáttmála stefna að slíkum lækkunum á kjörtímabilinu.