Geir H. Haarde, fráfarandi formaður Sjálfstæðisflokksins, vonast til að landsfundur geti sameinast um að farin verði tvöföld atkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þetta kom fram í ræðu hans við upphaf landsfundar.

Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins leggur til þá leið, þ.e. að annars vegar verði atkvæðagreiðslu um hvort farið skuli í viðræður við ESB og hins vegar um niðurstöðuna ef farið verður í viðræður.

Geir gerði störf nefndarinnar að umtalsefni í ræðunni og sagði að mikilvægasta framlag hennar væri að tálsýnin um Evrópusambandsaðild sem töfralausn hefur verið kveðin niður.

Geir sagði að verði farið í tvöfalda atkvæðagreiðslu um ESB gæti fyrri atkvæðagreiðslan farið fram samhliða sveitarstjórnarkosningum á næsta ári að undangenginni vandaðri lagasetningu um þjóðaratkvæðagreiðsluna.

„Þannig gæfist líka öllum tækifæri til að kynna sér málin til hlítar og koma sjónarmiðum sínum á framfæri," sagði hann.

„Þetta er lýðræðisleg sáttaleið í málinu, sem ég vona að landsfundarmenn geti sameinast um. Ef einhvern tíma kemur svo að því að Íslendingar sæki um aðild að ESB verður mikilvægt að tryggja að allar framtíðarbreytingar á reglum sambandsins, sem skerða kunna fullveldi landsins enn frekar en upphafleg aðild, verði bornar undir þjóðaratkvæði hér á landi."