Geir H. Haarde gerði efnahagsástand Íslands að umtalsefni í þjóðhátíðarávarpi sínu. Geir sagðist telja að framundan séu betri tímar fyrir Íslendinga, þrátt fyrir að ástandið sé ekki gott nú.

„Erlendir fjármálamarkaðir hafa gengið í gegnum meiri sviptingar en um áratugaskeið og lánsfjárkreppa, sem af þeim hefur leitt, hvarvetna sagt til sín. Jafnvel virðulegustu og rótgrónustu fjármálastofnanir veraldar hafa lent í miklum erfiðleikum, tapað gríðarlegum fjármunum og sumar orðið gjaldþrota. Eins og íslenskt efnahagslíf hefur þróast á síðustu árum, orðið opnara, frjálsara og alþjóðlegra, var við því að búast að alþjóðlegar hræringar sem þessar segðu til sín hér sem annars staðar. Það er hinn nýi tími, sem ekki verður snúið frá,“ sagði Geir.

Geir viðurkenndi að verðhækkanir nauðsynjavöru virkuðu sem skattur á þjóðarbúið og rýrðu kjör allra í landinu, en minnti á að þróun á alþjóðamörkuðum leikur margar aðrar þjóðir miklu verr en Íslendinga.

Traust mikilvægt

Geir sagði stöðuna á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sýna að fátt er verðmætara en traust og trúverðugleiki. „Íslenska þjóðin nýtur trausts og það er mikilvægt að fyrirtækin okkar geri það einnig, ekki síst fjármálafyrirtækin. Bankastarfsemi grundvallast á gagnkvæmu trausti,“ sagði Geir.

Geir hvatti landsmenn einnig til að íhuga hvað þeir geti gert til að minnka neyslu jarðefnaeldsneyta. Hann benti á að eina varanlega lausnin á hækkandi olíuverði sé að draga úr notkun hennar með minni akstri og betri nýtingu, notkun sparneytnari ökutækja, tilflutningi í aðra orkugjafa o.s.frv.