„Þetta eru svona þrautavaralán og frekar ólíklegt að á þau verði dregið. En hinsvegar er mikilvægt að hafa möguleikann á því,“ sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra á fréttamannafundi fyrir skömmu um gjaldeyrisskiptasamninginn sem Seðlabanki Íslands gerði við Seðlabanka Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur.

Aðspurður um lánskjörin segir hann þau vera samkomulag á milli seðlabankanna og það reyni ekki á þau fyrr en dregið verði á lánalínuna.

Þessi aðgerð eykur gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands um einn og hálfan milljarð evra.

Geir sagði að þessi samningur hafi mikla þýðingu til þess að efla varnir og viðbúnað íslenska hagkerfisins út á við.