Geir H. Haarde telur að grunur um eignatilfærslu innan Kaupþings hafi verið valdur að því að Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn íslenskum hagsmunum og það hafi verið það sem Davíð Oddsson vísaði til í ræðu sinni á fundi Viðskiptaráðs á dögunum. Þetta kom fram í máli forsætisráðherra í Kastljósi nú í kvöld.

Beiting hryðjuverkalaga ófyrirgefanleg framkoma

„Við erum að tala þarna um helgina áður en hryðjuverkalögin eru sett og áður en við settum neyðarlögin hér á Íslandi. Ég átti samtöl við breska ráðherra, Davíð átti samtöl við bankastjóra Englandsbanka og við ræddum þetta ásamt fleiri ráðherrum. Það kom fram í þessum samtölum að það lá grunur á því að Kaupþing hafi verið að taka fjármuni frá Bretlandi og flytja til Íslands. Við könnuðum þetta hjá Kaupþingsmönnum og þeir sögðu að þetta væri ekki rétt og hafa síðan fullyrt það. Síðast í dag fékk ég skilaboð frá Sigurði Einarssyni um það að þetta væri ekki rétt heldur hefði þetta þvert á móti verið öfugt,“ sagði Geir aðspurður hvaða samtala Davíð Oddsson Seðlabankastjóri var að vitna til í ræðu sinni.

„Hvað sem því líður er þessi beiting hryðjuverkalaganna óréttlætanleg gagnvart okkur sem vinaþjóð í Nato og um aldir. Auk þess var þeim ekki beitt gegn Kaupþingi heldur gegn Landsbankanum og íslenskum hagsmunum í heild til að byrja með. Ófyrirgefanleg framkoma að mínum dómi.“

Hissa á hugmyndum um kosningar

Geir sagðist einnig vera hissa á hugmyndum sem m.a. tveir ráðherrar Samfylkingar, þau Björgvin G. Sigurðsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir, hafa viðrað um að kjósa til þings strax næsta vor.

„Ég er dálítið hissa á þessu vegna þess að í dag vorum við að ganga frá mjög veigamiklum ráðstöfunum til að bæta hag heimila og fyrirtækja, í gegnum lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Nú ríður á að hér sé öflug stjórn sem heldur um stjórnartaumana. Þetta prógram er til tveggja ára, það má ekki gleyma því. Það á ekki að stefna þessu í hættu að mínum dómi,“ sagði Geir. „Ég hef ekki heyrt þessar hugmyndir frá formanni Samfylkingarinnar og meðan svo er ekki þá höldum við ótrauð áfram.“

Geir sagði að í því efnahagsáfalli sem nú hefði dunið yfir verði allir að standa í lappirnar, það gilti líka um Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu. Annað væri uppgjöf og óvissa í stjórnmálum á næstunni gæti stefnt öllum aðgerðum á næstunni í uppnám og hættu.

Fjármálaeftirlitið veikburða

Forsætisráðherra vildi ekki kveða upp úrskurð um það hvort Fjármálaeftirlitið hafi gert mistök frekar en aðrir að undanförnu og sagði mistökin auðvitað fyrst og fremst vera bankanna.

„Fjármálaeftirlitið var veikburða miðað við stærð bankanna. Þar gerðu menn þó sitt besta að ég best veit, en ég held að þetta sýni að við eigum að sameina kraftana hjá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka og ég tek fulla ábyrgð á því að hafa tekið þátt í að sundra því fyrir 10 árum,“ sagði Geir og viðurkenndi að á sínum tíma hafi verið gerð mistök, þegar búið var um lagaumhverfi með þeim hætti að bankarnir gætu vaxið úr hófi fram.

„Mistökin eru kannski þau að hafa tekið evrópsku löggjöfina hráa upp í gegnum EES-kerfið og ekki hugað að því að það þyrfti kannski að setja einhver stærðarmörk á þessa banka. Nú veit ég ekki hvort það er í samræmi við reglur ESB en ef það er það ekki hefðum við þurft að fá undanþágu. Þetta er auðvelt að sjá nú en var ekki auðvelt að sjá fyrirfram,“ sagði Geir.