„Það verður að koma í ljós hvort aðgerðaáætlun er réttnefni eða ekki ,“ sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, við blaðamenn í Ráðherrabústaðnum, rétt í þessu um þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur í undirbúningi. Að öðru leyti sagði Geir fátt um hvaða aðgerðir eru í vændum hjá ríkisstjórninni en gaf til kynna að þótt vonandi yrði gefin út yfirlýsing fyrir opnun markaða í fyrramálið myndu sum þeirra atriða sem menn hafa rætt um að væru í undirbúningi geta beðið í nokkra daga til viðbótar.

Aðilar vinnumarkaðarins koma á ný til fundar við ríkisstjórnina í Ráðherrabústaðinum klukkan átta í kvöld. Geir H. Haarde, sagði við blaðamenn í Ráðherrabústaðnum að æskilegt væri að framlengja sem fyrst kjarasamninga sem ella yrðu lausir á almennum vinnumarkaði og hjá opinberum starfsmönnum í febrúar eða mars á næsta ári. „Þá þarf eflaust að hnika til einhverjum atriðum," sagði Geir.

Hann sagðist ekki vilja svara spurningum um hvort fyrir lægju samningar við erlenda seðlabanka um fyrirgreiðslu og vísaði spurningum um það atriði á Seðlabankann en sagði engin áform um að skipta um forystu í Seðlabankanum.

Geir sagði að enn væru ófrágengnir samningar við lífeyrissjóði um ýmis atriði vegna áforma um að lífeyrissjóðirnir flytji jafnvirði um 200 milljarða króna í erlendum eignum til landsins. „Lífeyrissjóðirnir hafi tekið málaleitan okkar vel,“ sagði Geir og sagði að það væri ekki aðalatriði hvort samningar lægju fyrir við lífeyrissjóðina strax í fyrramálið. „Það þarf að semja um eitt og annað,“ sagði Geir Haarde og sagði margt í smáa letrinu sem skiptir máli. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins vilja lífeyrissjóðirnir setja ýmis skilyrði um ráðstöfun þessa fjár.

Um hugsanlegar breytingar á eignarhaldi bankanna og stöðu þeirra við núverandi aðstæður sagði forsætisráðherra það eitt að eigendur bankanna réðu för. Hann sagðist ekki vita hvort lífeyrissjóðirnir væru með áform um að koma inn í eigendahóp bankanna.

„Það eru vissulega erfiðir tímar,“ sagði Geir og sagði að nú væri mesta kreppa á alþjóðafjármálamörkuðum síðan 1914. „Það er ekki skrítið að hún hafi sín áhrif á Íslandi eins og í nálægum löndum.“