„Ég er undrandi á þessum dómi,“ segir Geir H. Haarde forsætisráðherra um þá niðurstöðu Hæstaréttar að framkvæmd sölu á 39,86% hlut ríkisins í Íslenskum aðalverktökum (ÍAV), sem samið var um í maí árið 2003, hafi verið ólögmæt.

Geir segir að stjórnvöld hafi verið í góðri trú um að eðlilega hefði verið að málum staðið.

„Við eigum hins vegar eftir að fara ofan í saumana á dómnum og þeim forsendum sem að baki liggja. Við munum að sjálfsögðu gera það. Síðan verða þeir sem eru aðilar að þessu máli að öðru leyti að gera það upp við sig hvað þeir gera. Á þeim grundvelli þurfum við að bregðast við,“ sagði Geir við fréttamenn í dag.

Það voru JB Byggingafélag ehf. (JB) og Trésmiðja Snorra Hjaltasonar ehf. (TSH) sem höfðuðu málið gegn ríkinu. JB og TSH skiluðu sameiginlegu boði í hlut ríkisins í ÍAV. Ríkið tók tilboði Eignarhaldsfélagsins AV.