„Við erum með aðrar aðgerðir í undirbúningi sömuleiðis, sem hafa sama tilgang,“ sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra á blaðamannafundi fyrir skömmu.

„Við erum líka að undirbúa lántöku en það mál er ekki komið lengra en svo að við getum sagt frekar frá því,“ sagði hann jafnframt.

Seðlabankar Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur hafa gert tvíhliða gjaldeyrisskiptasamninga við Seðlabanka Íslands. Samningarnir eru viðbúnaðarráðstöfun og veita Seðlabanka Íslands aðgang að evrum gerist þess þörf. Hver samningur um sig veitir aðgang að allt að 500 milljónum evra gegn íslenskum krónum. Seðlabanki Íslands getur dregið á samningana þegar og ef nauðsyn krefur.

Geir sagði að það skipti miklu máli að senda þau skilaboð út á erlenda markaði að þessir skiptasamningar séu ekki einangrað tilvik heldur verður þessu fylgt eftir með aðgerðum innanlands.

Þá sagði hann að reynt verði að auka virkni peningamálastefnunnar og haldið áfram með ábyrga og aðhaldssama ríkisfjármálastjórn.