Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnuhreyfingarinnar á Íslandi (KSÍ), segir íþróttir hafa verið fjársvelta grein í alltof langan tíma og vill að ríkið auki framlag sitt til málaflokksins. Í Morgunblaðinu í dag segir að velta tveggja knattspyrnufélaganna í tveimur efstu deildum árið 2011 hafi numið rúmum 2 milljörðum króna sé tekið mið að ársreikningum. KSÍ velti um 800 til 900 milljónum króna árið 2011. Þá er um 50 lið þar fyrir utan með veltu upp á milljarð. Geir bendir á að félög sem eru í tveimur efstu deildunum greiði um 1,2 milljarða í laun til leikmanna og starfsmanna eins og þjálfara yngri flokka. Með tekjuskatti og tryggingagjöldum renni um milljarður aftur til ríkisins af starfinu í heild.

Geir kallar eftir því að komið verði til móts við knattspyrnuhreyfinguna og aðrar íþróttagreinar s.s. með skattaívilnunum fyrir þjálfara í yngri flokkum. Í blaðinu bendir Geir á að fordæmi séu fyrir því Danmörku þar sem sérstök skattleysismörk eru til staðar fyrir þá sem sinna barna- og unglingastarfi.

Geir segir að KSÍ hafi samþykkt ályktun um að bæta fjármagni í ferðasjóð íþróttafélaga sem nú er um 65 milljónir króna. Að sögn hans hrekkur sú upphæð fyrir 10% af umsóknum í sjóðinn.

„Flug og keyrsla eru dýr og þetta er að sliga félög sem eru langt frá höfuðborgarsvæðinu. Kostaðurinn lendir að mestu leyti á foreldrum,“ segir hann.