Aðspurður um hvort reynt hefði verið að fá Framsóknarflokkinn sem „þriðja hjólið“ í meirihluta Sjálfstæðisflokks og F-lista í borgarstjórn Reykjavíkur segir Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins að sér hafi ekki verið kunnugt um þá atburðarás.

Hann sagði þó að hann og Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins hefðu talast við og „borið saman bækur“ eins og hann orðaði það í samtali við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

Hann sagði viðræður hafa byrjað fyrir nokkrum dögum og formenn flokkanna hefðu verið í sambandi.

Geir tók undir orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur , formanns Samfylkingarinnar um að nýmyndaður meirihluti myndi ekki hafa áhrif á ríkisstjórnarsamstarf flokkanna. Hann sagði að verið væri að vinna að ákveðnum verkefnum og að málefni sveitastjórna myndi ekki hafa áhrif á það.