Geir H. Haarde, forsætisráðherra, var í vikunni í viðtali á kanadísku viðskiptastöðinni BNN. Þar ræddi hann við fréttamann um stöðuna á alþjóðafjármálamörkuðum og hvaða áhrif hún hefði á ísland.

Geir taldi að atburðir síðustu vikna, í Bandaríkjunum, muni ekki hafa bein áhrif á Íslandi. Aftur á móti muni óbein áhrif koma fram m.a. í lausafjárskorti. Hann sagði grunnhagsmuni Íslands ágætlega setta og lagði áherslu á að erlendir fjárfestar væru velkomnir til Íslands að skoða tækifærin sem hér liggi.

Geir sagði að óhjákvæmilega hafi kreppa á alþjóðafjármálamörkuðum áhrif á Íslandi, jafnt á fyrirtæki sem og á almenna borgara. Þess muni verða vart í breytingum á neyslumynstri.

Aðspurður um gengisfall krónunnar sagði Geir að það hafi verið fyrirséð að hluta en sé þó meira en búist var við. Skýrist það m.a. af lausafjárkreppu og alþjóðlegri efnahagslægð, sem eigi rætur að rekja til Bandaríkjanna. Geir benti þó á að núverandi gengi krónunnar kæmi sér vel fyrir útfluttning Íslendinga, í því samhengi benti hann á útfluttning á fiski og áli.

Geir sagði fréttamanni BNN að hann væri handviss um að íslensku bankarnir kæmust í gegnum núverandi efnahagslægð. Grundvallarundirstöður bankanna væru sterkar og þeir hafi allir staðist álagsprófanir stjórnvalda.

Geir sagði mikil tækifæri liggja í endurvinnanlegri orku sem íslendingar muni nýta sér sem og aukin áhersla á  sjávarútveg.