Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra skrifaði stjórn Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu (EBRD) bréf í janúar sl. og fór fram á að bankinn afgreiddi lánsloforð til Orkuveitu Reykjavíkur. Að sögn Hjörleifs Kvarans, forstjóra OR, er um að ræða 6,5 milljarð króna sem átti að afhenda OR í október síðastliðnum samkvæmt lánasamningi. Félagið hefur nú fengið lánið afhent.

“Til að aðstoða okkur og til að liðka fyrir þessu skrifaði forsætisráðherrann fyrrverandi stuðningsbréf og það liðkaði til fyrir okkur,” sagði Hjörleifur Kvaran, forstjóri OR. Að sögn Hjörleifs skipti bréf forsætisráðherra miklu og setti það málið á hreyfingu. Árni Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður situr í stjórn EBRD.

Sömuleiðis á OR samþykkt lánsloforð hjá Fjárfestingabanka Evrópu upp á 25 milljarða króna. Að sögn Hjörleifs er sú afgreiðsla í biðstöðu en lánasamningurinn var ekki að fullu frágenginn. Að sögn Hjörleifs gera þeir ráð fyrir að það liðkist fyrir þessum samningi þegar líður á árið.

Niðurstaða lánasamningsins getur haft áhrif á það hvort Hverahlíðavirkjun kemst á dagskrá.