Geir H. Haarde segir í Morgunblaðinu í dag að honum þyki kaldhæðnislegt að þeir sem stóðu að ákæru gegn honum fyrir Landsdómi, m.a. vegna Icesave, skuli nú tala um að ekki eigi að benda á sökudólga. „Þetta fólk benti á mig sem sökudólg, en Landsdómur hafnaði því eins og öllum þeim atriðum sem sneru beint að bankahruninu. Ég gef ekki mikið fyrir þessi orð.“

Í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun sagði Geir að Íslendingar hefðu verið beittir mjög ruddalegum aðgerðum af hálfu Breta, Hollendinga, Evrópusambandsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og vinaþjóða Íslands á Norðurlöndunum. Sagði hann að sér hefði alltaf þótt eðlilegast að leyst yrði úr Icesave-deilunni fyrir dómstólum, en með þessum aðgerðum hefðu Íslendingar verið nauðbeygðir til að ganga samningaleiðina.

„Það er að sýna sig núna að það hvernig búið var um þessi neyðarlög, sem ég bar pólitíska ábyrgð á umfram aðra menn, skiptir miklu máli. Fyrstu viðbrögð á slysstað geta skipt máli.“ Sagði hann að þetta hafi nú verið staðfest með þessum dómi EFTA-dómstólsins og Eftirlitsstofnun EFTA hafi áður staðfest aðra þætti laganna sem og Hæstiréttur Íslands. Ákvæði neyðarlaganna sem breytti kröfuröð kröfuhafa hefur gert það að verkum að staða innlánseigenda Landsbankans er betri en ella.

Í Morgunútvarpinu sagði hann að hefði meirihluta Alþingis tekist að fá það í gegn að fá hann sakfelldan fyrir hans þátt í setningu neyðarlaganna fyrir Landsdómi þá hefði það líklega grafið undan málstað Íslands fyrir EFTA dómstólnum.