Geirlaug Jóhannsdóttir hefur verið ráðin til að annast starfsemi Hagvangs í Borgarnesi. Skrifstofan er staðsett að Bjarnarbraut 8, Borgarnesi. Markmiðið með opnun skrifstofunnar er að sinna auknum verkefnum á landsbyggðinni. Í tilkynningu segir að sérstaklega muni skrifstofan annast verkefni í Norðvesturkjördæmi auk verkefna annars staðar á landinu.

Geirlaug Jóhannsdóttir.
Geirlaug Jóhannsdóttir.

Geirlaug hefur lokið MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík með áherslu á mannauðsstjórnun og BS í rekstrarfræðum frá Háskólanum á Bifröst. Geirlaug hefur undanfarin 10 ár starfað við Háskólann á Bifröst og er nú í hlutastarfi sem aðjúnkt á viðskiptasviði skólans og kennir m.a. mannauðsstjórnun.

Áður starfaði Geirlaug við Háskólann á Bifröst sem forstöðumaður símenntunar og verkefnastjóri tilraunaverkefnis um hækkað menntunarstig í Norðvesturkjördæmi. Þar áður starfaði Geirlaug sem fræðslustjóri Alcan á Íslandi. Geirlaug hefur reynslu af sveitarstjórnarstörfum og hefur setið í sveitarstjórn Borgarbyggðar frá 2010 ásamt ýmsum stjórnum og nefndum. Geirlaug býr í Borgarnesi og er gift Stefáni Sveinbjörnssyni, framkvæmdastjóra VR og eiga þau þrjú börn.