Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna segir að allt útlit sé fyrir að bandaríska hagkerfið sé nú á batavegi.

Þetta sagði Geithner í samtali við fjölmiðla vestanhafs i gær. Á sama tíma lagði hann áherslu á að leiðtogar 20 stærstu iðnríkja heims (G20) þyrftu að vanda til verks á fundi sínum sem hefst í Bandaríkjunum í vikunni og tryggja varanlegan bata á næstunni.

„Bataferlið er rétt að hefjast,“ sagði Geithner.

„Við þurfum að tryggja að við höldum áfram á sömu braut þannig að við sjáum viðvarandi hagvöxt á næstu misserum. Einkaneyslan þarf að taka við sér, fjármálakerfið þarf að komast á lappirnar og við þurfum að koma í veg fyrir langvarandi atvinnuleysi.

Þá sagði Geithner einnig að á markmiðið væri að markaðir næðu jafnvægi. Það þýddi jafnframt að þeir gætu ekki bólgnað út eins og þeir gerðu fyrir fjármálakreppuna.