Fjármálaráðherrar 20 helstu iðnríkja heims hafa ákveðið að gera allt til að tryggja endurfjámögnun banka og fjármálafyrirtækja og lægja öldurnar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Ráðherrarnir ræddu skuldavanda evrusvæðisins og eiginfjárvanda banka og fjármálafyrirtækja á fundi sínum í París í Frakklandi um helgina. Stefnt er að því að taka fyrir tillögur José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem felur í sér hömlur á útgreiðslu bónusa og hertar eiginfjárkröfur, á leiðtogafundi ESB síðar í mánuðinum. Á meðal tillagna Barroso var að Evrópusambandsríkin styrkti banka innan efnahagsbandalagsins, bæði með aðkomu skattgreiðenda og fjárfesta.

Bandaríska fréttastofan CNN hefur eftir Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, að þótt mikið verk sé enn eftir lofi fundurinn um helgina góðu, ekki síst þar sem ráðamenn í Frakklandi og Þýskalandi styðji þær hugmyndir sem ganga út á að styrkja banka þar og draga úr óstöðugleika fjármálakerfisins á evrusvæðinu.