Lánshæfisfyrirtækin Moody‘s og S&P telja horfur Alvogen í Bandaríkjunum vera neikvæðar. S&P nefnir í lánshæfismati sínu að rekstrarhorfur Alvogen hafi versnað á síðustu tveimur árum og Moody’s hefur áhyggjur af mikilli skuldsetningu félagsins. Eðlilegur fyrirvari miðað við aðstæður Alvogen segir að niðurstaða lánshæfisfélaganna komi ekki á óvart í ljósi áhrifa heimsfaraldursins á reksturinn en félagið standi þó vel.

„Það er eðlilegt að matsfyrirtækin setji varnagla eins og þarna er gert, við þessar aðstæður,“ segir í í skriflegu svari Alvogen við fyrirspurn Viðskiptablaðsins. „Það er þó gaman að geta þess að Alvogen í Bandaríkjunum, gekk betur í fyrra en við þorðum að vona í ljósi þess hve harkalega faraldurinn hefur leikið bandarískt samfélag og viðskiptalíf almennt,“ segir í svari Alvogen.

Fyrirtækið sé með sterka vörulínu af lyfjum í þróun, sem muni fara á markað á næstu tveimur árum.

Veltur á lyfjaþróun

S&P býst við að aðlagað EBITDA hlutfall Alvogen í Bandaríkjunum hafi lækkað úr 40% árið 2018 í 20% árið 2020. Ástæðan sé fyrst og fremst lægra verð og minni sala Oseltamivir, samheitalyfjaútgáfu af Tamiflu, og talsverðs fasts kostnaðar hjá félaginu.

S&P býst við að EBITDA hlutfall félagsins verði um 25% árin 2021 til 2024, að því gefnu að hóflegur árangur náist í að koma nýjum vörum á markað. Tekjur Alvogen í Bandaríkjunum jukust þó úr 348 milljónum dollara á rekstrarárinu 2018/2019, í 474 milljónir dollara rekstrarárið 2019/2020 sem lauk í lok september samkvæmt lánshæfismati Alvogen.

Þrátt fyrir neikvæðar horfur gerir grunnsviðsmynd S&P engu síður ráð fyrir að Alvogen takist að ljúka við þróun nokkurra lyfja og ná tveggja stafa prósentutölu í tekjuvexti á árinu 2021 og að framlegð aukist um 2 prósentustig milli ára. Því er lánshæfisflokkurinn óbreyttur en horfurnar eru neikvæðar þar sem hætta sé á að það gangi ekki eftir.

Gangi rekstur Alvogen í Bandaríkjunum betur en grunnsviðsmynd S&P geri ráð fyrir og Alvogen ljúki við forgangsverkefni félagsins á árinu geti það skapað umtalsvert jákvætt sjóðsstreymi og þannig væri hægt að draga úr skuldsetningu og styðja við frekari vaxtaráform félagsins.

Í samtali við Viðskiptablaðið á síðasta ári sagði Árni Harðarson, aðstoðarforstjóri Alvogen, að vonir stæðu til að rekstrarhagnaður félagsins í Bandaríkjunum myndi aukast til muna á næstu tveimur árum. Árni sagði þá að markmið félagsins væri að auka rekstrarhagnað fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) úr 176 milljónum árið 2019 í tæpar 300 milljónir dollar á árinu 2020 og í um 556 milljónir dollara árið 2022.

Meiri hagnaðarvon en meiri áhætta með flóknari lyfjum

S&P bendir á að Alvogen framleiði flókin samheitalyf sem gefi alla jafna af sér traustari tekjur og um lengri hríð en hefðbundin samheitalyf. Að sama skapi sé hins vegar meiri hætta fólgin í þróun þeirra. Keppinautarnir séu alla jafna tveir til þrír um hvert samheitalyf á meðan það geti verið sjö til átta þegar kemur að hefðbundnari samheitalyfjum. Ferlið hjá bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitinu FDA, lengist eftir því sem samheitalyfin eru flóknari. Lyfjaþróun Alvogen á nýjum lyfjum undanfarin tvö ár hafi gengið hægar en búist var við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .