„Ég er alin upp á Kjalarnesinu. Faðir minn var bóndi og ég fór þessa venjulegu leið, í menntaskóla og síðan í lagadeild Háskólans. Ég vann fyrstu árin hjá borgarfógetaembættinu í Reykjavík í skiptaréttinum sem sá um gjaldþrotaskipti og önnur skipti. Ég var þar í nokkur ár og svo fór ég í að reka lögfræðiþjónustu. Þannig að meginhluta starfsævinnar hef ég verið í lögmennsku og rekið mína eigin stofu. Ég hef kennt gjaldþrotarétt, eða skiptarétt, í Háskólanum í Reykjavík, gerði það um árabil. Ég stundaði einnig talsvert kennslu fyrir Lögmannafélagið, Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og ýmislegt þess háttar samhliða lögmannsstörfum.“

Þetta segir Steinunn Guðbjartsdóttir, sem hefur undanfarin ár verið formaður slitastjórnar Glitnis. Spurð um hvernig það atvikaðist að hún var skipuð í skilanefnd bankans segist hún ekki telja að hún sé rétta manneskjan til að meta það. „Kannski vegna þess að ég hafði sinnt kennslu á þessu sviði og hafði starfað mikið að þessum málaflokki í gegnum tíðina,“ segir hún.

Upplausn og óöryggi

Steinunn segir verkefnið hafa verið risavaxið. „Ég hefði aldrei trúað, hefði því verið spáð, að ég ætti eftir að eiga hlut að því að taka við stjórn banka sem var í fullum rekstri. Maður hreinlega gekk inn í stjórnarherbergið og tók, ásamt þeim sem voru skipaðir með mér í skilanefndina á þeim tíma, við bankanum undir þessum erfiðu kringumstæðum.“

Hún segir ástandið hafa markast af upplausn og óöryggi. „Fyrst á dagskránni var að tryggja að það væri hreinlega hægt að opna bankana daginn eftir. Eins og við kannski munum var almenningur haldinn mikilli angist, fór í banka í stríðum straumum og tók út peninga. Það vissi í rauninni enginn hvernig farið yrði með þetta. Það þurfti að tryggja að það væru til peningar, seðlar í bönkunum, til að það væri hægt að borga fólki það sem það vildi taka út. Annars hefði skapast ófremdarástand.“

Ítarlegt viðtal við Steinunni er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .