Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, kveðst áhyggjufull yfir nýrri stefnuyfirlýsingu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, heilbrigðisráðherra, Læknafélags íslands og Skurðlæknafélags íslands í tengslum við gerð kjarasamninga lækna.

Ástæðan er sú að í 7. lið yfirlýsingarinnar segir:

Fram fari heildstæð skoðun á skipulagi, uppbyggingu og fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Opna þarf möguleika á fjölbreyttum rekstrarformum sem byggja á virkri þjónustu- og verkefnastýringu, skýrum gæðakröfum samhliða jafnræði í greiðslum óháð rekstrarformi.

Í hádegisfréttum Bylgjunnar var haft eftir Katrínu að hún teldi yfirlýsinguna bera þess skýrt merki að heimila ætti einkaaðilum þáttöku í að veita heilbrigðisþjónustu í auknum mæli.

Furðar sig á stefnunni

"Mér finnst þessi yfirlýsing um að það sé ætlunin að auka hlut einkarekstrar í kerfinu án þess að það sé sérstaklega rökstutt með neinum hætti merkileg í ljósi þess að rannsóknir sýna að félagslega rekið heilbrigðiskerfi er besta kerfið þegar kemur að aðgengi, lýðheilsu og kostnaði," sagði Katrín í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Katrín telur ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks þurfi að leggja fram nánari rökstuðning hvers vegna þessi stefna sé tekin í heilbrigðismálum.