Actavis hefur byrjað framleiðslu á geðlyfinu Olanzapine og er það komið í sölu í Þýskalandi. Samheitalyfið er þróað á rannsóknarsviði Actavis á Íslandi. Frumlyfið var eitt söluhæsta lyf í Evrópu á síðasta ári.

Lyfið er selt í gegnum Medis, sölusvið Actavis sem sér um sölu lyfja til annarra lyfjafyrirtækja. Viðskiptavinir Medis eru fyrstir á markað með þetta samheitalyf í Þýskalandi.

Olanzapine er samheitalyf Zyprexa, sem er söluhæsta lyf lyfjafyrirtækisins Eli Lilly. Það er notað við geðklofa og tvískautaröskun. Actavis framleiðir lyfið í 2,5mg, 5mg, 7,5mg, 10mg, 15mg og 20mg töflum. Árleg sala frumlyfsins nam um 3,3 milljörðum evra (282 milljörðum ISK), miðað við lok fyrsta ársfjórðungs 2007, skv. upplýsingum frá IMS health data. Lyfið seldist fyrir um 140 milljónir evra (12 milljarða ISK) á sama tímabili í Þýskalandi. Zyprexa var fjórða mest selda lyf í Evrópu, og í Þýskalandi, á árinu 2006.