Bandaríska fyrirtækið CSRHub nýtir sér tæknilausn íslenska sprotafyrirtækisins GemmaQ. Það mun gera notendum CSRHub, sem er meðal annars aðgengilegt í Bloomberg Terminal, kleift að nálgast vísitölu GemmaQ og rauntíma upplýsingar um kynjahlutföll meðal fyrirtækja. Þetta kemur fram í tilkynningu, en CSRHub hefur þróað eitt umfangsmesta reitunarkerfi í heimi með ábyrgar upplýsingar fyrir fjárfesta.

Þá verður einnig mögulegt að nálgast GemmaQ í gegnum upplýsingatorg Amazon, sem er aðgengilegt milljónum notenda Amazon á borð við eignastýringar, ráðgjafafyrirtæki og fjárfestingarsjóði, sem treysta jafnframt á rauntíma jafnréttis upplýsingar við mat á fyrirtækjum.

Vísisjóðurinn Crowberry Capital, sem stofnaður var af Helgu Valfells, Heklu Arnardóttur og Jennýju Ruth Hrafnsdóttur leiddi 50 milljón króna frumfjármögnun félagsins.

Fjárfestinguna mun GemmaQ nýta til að vaxa inn á Bandaríkjamarkað til að koma til móts við aukna eftirspurn eftir jafnréttistengdum lausnum og upplýsingum, og þá vitundarvakningu meðal fyrirtækja um mikilvægi þess fyrir betri rekstur að hafa fjölbreyttar raddir í stjórnendateymum.

Eignir í stýringu sjóða sem fjárfesta með sams konar kynjagleraugum vaxið frá því að vera 3,4 milljarðar Bandaríkjadala á árinu 2019 í 11 milljarða Bandaríkjadala á heimsvísu í dag.

Fjárfesting í jafnrétti kynja

GemmaQ vinnur að þróun hugbúnaðarlausnar sem gerir notendum, fjárfestum og fyrirtækjum, mögulegt að nálgast rauntíma upplýsingar um kynjahlutföll í leiðtogastöðum á mörkuðum og fjárfesta þannig beint í jafnrétti kynjanna.

Framkvæmdastjóri félagsins er Freyja Vilborg Þórarinsdóttir og tæknistjóri hugbúnaðarþróunar er Logi Bragason,  sem kemur til GemmaQ eftir 16 ár hjá Bloomberg í New York og London. Freyja var áður hjá eignastýringu Bank of America - Merrill Lynch í Bandaríkjunum og á íslenskum fjármálamarkaði, fyrir og eftir bankahrun, meðal annars sem forstöðumaður hjá Seðlabanka Íslands.

GemmaQ kynjakvarðinn hefur verið sýnilegur á upplýsingaveitunni Keldan.is fyrir íslenskan kauphallarmarkað, sem hefur reynst góður prufumarkaður fyrir þróun vörunnar. Hafa íslenskir lífeyrissjóðir notað GemmaQ við mat á fjárfestingum og íslensk fyrirtæki keypt leyfi til notkunar á kvarðanum í markaðslegum tilgangi.