GemmaQ vísitalan fyrir íslenskan markað hækkaði í nóvember með skipulagsbreytingum hjá tveimur fyrirtækjum á aðalmarkaði íslensku kauphallarinnar.

Í gær var kynnt breytt skipurit hjá Sýn. Var stöðugildum samstæðunnar fækkað „vegna aukinnar áherslu á skilvirkni í rekstri,“ eins og segir í tilkynningu frá Sýn. Þá kemur fram að félagið hafi ráðið nýja framkvæmdastjóra til að „undirbúa frekari sókn“.

Var Hulda Hallgrímsdóttir ráðin framkvæmdastjóri nýsköpunar og rekstrar, með áherslu á vöruþróun, rekstur og stafrænar umbreytingar. Alda Sigurðardóttir tekur við sem framkvæmdastjóri mannauðs „með sérstaka áherslu á fyrirtækjamenningu til vaxtar“.

Þá voru gerðar breytingar hjá Nova 11. nóvember síðastliðinn þegar Magnús Árnason, sem starfaði sem framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar, lét af störfum - og var samhliða fækkað í skemmtana- og framkvæmdastjórn félagsins.

Með þessum breytingum í nóvember hækkar GemmaQ vísitalan í 7.2 - en hún var 7.1 af 10 í október 2022. Á Keldunni má einnig sjá topp 10 listann fyrir íslenskan markað. Til samanburðar þá er vísitalan fyrir Bandaríkjamarkað 5.278. Þar af er meðaltals GemmaQ fyrir stærstu 100 fyrirtækin, mælt út frá tekjum, 6.224 í nóvember 2022.

Hefja sölu á rauntíma vísitölu

Þá hefur nýsköpunarfyrirtækið GemmaQ hafið sölu á rauntíma vísitölu sinni fyrir Bandaríkjamarkað á markaðstorgi Amazon í gegnum bandarískt dótturfélag sitt, til að koma til móts við mikla eftirspurn eftir jafnréttis tengdum upplýsingum og tæknilausnum.

Um milljón fjárfestar hafa nú aðgang að vísitölu GemmaQ, sem mælir kynjahlutföll í framkvæmdastjórnum og stjórnum fyrirtækja á kauphallarmörkuðum um heim. Notendur eru meðal annars bandarískt ráðgjafafyrirtæki, upplýsingaveitur, lífeyrissjóðir, fjárfestar og rannsakendur.

Hægt er að vakta þróun vísitölunnar fyrir íslenskan og bandarískan markað á vettvangi GemmaQ. Þar er öllum opið að fletta upp kynjahlutföllum í æðstu stjórnunarstörfum meðal Fortune 500 fyrirtækjanna, og bera fyrirtæki saman eftir atvinnugeirum, ríkjum og kauphöllum.