Bandaríska fyrirtækið General Electric hefur hætt við sölu heimilistækjadeildar fyrirtækisins til sænska fyrirtækisins Electrolx AB. Ástæðan sem GE gefur fyrir því að hætta við samninginn er að Samkeppniseftirlit Bandaríkjanna hefur gert athugasemdir við samrunann og ekki er ljóst að eftirlitið muni samþykkja söluna.

Vegna þess að ekkert varð af sölunni þá á GE rétt á því að fá greiddar 175 milljónir Bandaríkjadala, um 22,8 milljarða króna, úr hendi Electrolux.

Electrolux hafði frumkvæðið af kaupunum en félagið vildi auka við markaðshlutdeild sína í Norður-Ameríku, og þá sérstaklega að til að nálgast helsta keppinaut sinn í Bandaríkjunum, Whirlpool. Fyrirtækið hefur sagt að það er óánægt með ákvörðun GE að hætta við samninginn á meðan enn sé óljóst hvort að Samkeppniseftirlit Bandaríkjanna muni samþykkja söluna.

Samkeppniseftirlitið hefur sagt að salan myndi draga úr samkeppni á markaðnum og hækka verð á heimilistækjum, til óhags fyrir neytendur.

Mismunur á hlutabréfaverði General Electric og Electrolux síðan tilkynnt var um söluna á heimilistækjadeild GE.

© vb.is (vb.is)