General Electric (NYSE:GE) verður í fyrsta sinn í 111 ár ekki hluti af Dow Jones vísitölunni (DJIA). Kjörbúðakeðjan Walgreens Boots Alliance (NASDAQ:WBA) mun taka sæti GE í vísitölunni. Þetta kemur fram á vef CNN .

GE var eitt af þeim fyrirtækjum sem var í vístölunni við upphaf hennar árið 1896 og hið síðasta af upphaflegum félögum hennar til þess að falla út. Fyrirtækið hefur svo þar til nú verið aðili að vísitölunni óslitið síðan árið 1907.

Þessar fréttir koma í kjölfar mikilla erfiðleika hjá fyrirtækinu, en slæmir viðskiptasamningar hafa komið því í fjárhagsvandræði. Forstjóra fyrirtækisins var skipt út, þúsundum starfsmanna var sagt upp og arðgreiðslur voru lækkaðar um um helming í kjölfar erfiðleikanna.

Á síðasta ári var GE það fyrirtæki sem stóð sig verst í Dow Jones vísitölunni, en félagið lækkaði um tæpan helming í virði. Hingað til á árinu hefur virði félagsins hrapað enn meira og lækkað um 25%.