General Motors og Chrysler eru í samrunaviðræðum. Viðræðurnar hófust fyrir meira en mánuði síðan, en enn er óvíst um hvort af samningum verður.

Wall Street Journal sagði frá því í gær að hlé hefði verið gert á samrunaviðræðunum vegna óróa á fjármálamarkaði. Heimildarmenn Times um málið töldu hins vegar helmings líkur á að af samruna yrði, en líklega tæki nokkrar vikur til viðbótar að ljúka samningsgerð.

Hlutabréf General Motors hafa lækkað mikið að undanförnu og hefur gengi þeirra ekki verið lægra í 60 ár. Fyrirtækið hefur þó neitað sögusögnum um að það sé að verða gjaldþrota.

Gengi bréfa General Motors fór niður í 4 dali á hlut í gær, og hafði þá ekki verið lægra síðan árið 1949. Það hækkaði þó síðari hluta dags og stóð í 4,9 dölum á hlut við lokun markaða.