Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors seldi nær 9,9 milljónir bifreiða á heimsvísu í fyrra, sem er 2% fleiri bílar en fyrirtækið seldi árið 2013. Hefur GM aldrei selt fleiri bifreiðar á einu ári en í fyrra. GM er nú þriðji stærsti bifreiðaframleiðandinn þegar fjöldi seldra bíla er skoðaður, á eftir Toyota og Volkswagen.

Í yfirlýsingu er haft eftir forstjóra fyrirtækisins, Mary Barra, að árangurinn sé sérstaklega ánægjulegur í ljósi þess að markaðsaðstæður voru ekki alls staðar eins og best verður á kosið.

Það setur strik í reikninginn hjá GM að í fyrra þurfti framleiðandinn að innkalla ríflega 30 milljónir bíla vegna galla í kveikibúnaði. Kostnaður vegna innkallananna nam tveimur milljörðum dala.