Bréf í 365 hf. hafa lækkað mikið undanfarið þrátt fyrir um 6% hækkun í gær og 1,3% í morgun, segir greiningardeild Glitnis. Bréfin hafa lækkað um 18% á tæpum mánuði.

?Verð hlutabréfa í Teymi, hinum hluta Dagsbrúnar, hefur hinsvegar lækkað um 8% frá því félögin voru skráð í sitt hvoru lagi í Kauphöllina fyrir tæpum mánuði síðan. Fjárhags- og rekstrarstaða Teymis var betri en 365 við skráningu og skýrir það ólík viðbrögð fjárfesta við skráningu félaganna,? segir greiningardeildin.

Nauðsynlegt að selja eignir

Hún segir að 365 tilkynnti í síðustu viku rekstraráætlun fyrirtækisins fyrir árið 2007. ?Auk þess tilkynnti félagið um eignasölu til að minnka skuldabyrði félagsins. Þannig hefur Landsbankinn sölutryggt 64% eignarhlut í Wyndeham og einnig hefur félagið selt dreifikerfi Digital Ísland og um 9% hlut í Hands Holding. Miðað við þessa eignasölu og núverandi markaðsverðmæti í Kauphöll Íslands er EV/EBITDA hlutfall 365 um 15,1.

Það telst vera hátt og ekki til þess fallið að vekja áhuga fjárfesta. Það er því nauðsynlegt að 365 nái að selja það sem eftir stendur í Wyndeham (36% eignarhlutur) og eftirstandandi hlut (30%) í Hands Holding. Ef 365 tekst að selja hlutina á bókfærðu virði þeirra (5.612 milljónir króna) mun EV/EBITDA hlutfallið lækka í 10,8. Hækkun hlutabréfaverðs 365 síðustu daga má því meðal annars rekja til væntinga fjárfesta um að sala hlutanna gangi eftir,? segir greiningardeildin.

Fons kaupir hlut Straums Burðaráss í 365

Straumur Burðarás seldi 9,3% hlut sinn í 365 til Fons eignarhaldsfélags. Gengi viðskiptanna var 4,08 krónur á hlut, ?sem er 4,6% yfir núverandi gengi á markaði (3,9). Þar með á Fons 14,85% hlut í 365 og verður þriðji stærsti hluthafi 365 á eftir Baugi og Runni ehf.,? segir greiningardeildin.