Aflandsgengi krónu er komið niður í 220 krónur/evru samkvæmt upplýsingum á Keldunni. Er þá vitaskuld átt við miðgengi en kaupgengi er 210 krónur og sölugengi er 230. Síðasta skráða gengi var 227,5 en styrkingin kemur í kjölfar gjaldeyrisútboðs Seðlabankans þar sem eigendum aflandskróna bauðst að selja krónur sínar í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri.

Eins og fram hefur komið á vb.is þykja bæði Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra, og Páli Harðarsyni, forstjóra kauphallar, niðurstöður útboðsins til marks um að ekki sé nein örvænting á meðal fjárfesta að losna við aflandskrónurnar og gæti það skýrt hækkandi gengi. Skráð gengi evru hjá Seðlabankanum var í morgun 166,28 krónur.