Gengi hlutabréfa bandaríska líftæknifyrirtækisins Amgen hækkaði um 2% þegar best lét eftir opnun hlutabréfamarkaða vestanhafs í gær í kjölfar kaupa á Íslenskri erfðagreiningu. Kaupverðið nam 415 milljónum dala, rúmum 50 milljörðum íslenskra króna. Undir lok viðskiptadagsins gaf gengið eftir. Hækkunin nam engu að síður 1,61%. Gengi hlutabréfa Amgen stendur í 89,74 dölum, jafnvirði rúmra 11.300 króna, á hlut og hefur það verið í hæstu hæðum undanfarna tvo mánuði. Það hefur hækkað um tæp 40% frá síðustu áramótum.

Gengi hlutabréfa Amgen hefur í raun aðeins einu sinni áður verið hærra. Það var í september árið 2005 þegar það fór hæst í tæpa 85 dali á hlut.

Með pakkfulla sjóði

Eins og fram kom á vb.is í gær er Amgen risastórt líftæknifyrirtæki. Það var stofnað árið 1980 og er með starfsemi um allan heim. Starfsmenn eru um 17 þúsund. Heildartekjur námu 15,6 milljörðum dala í fyrra, um 2.000 milljörðum íslenskra króna. Hagnaður þess nam tæpum 3,7 milljörðum dala í fyrra, jafnvirði 467 milljarða íslenskra króna. Amgen átti í lok síðasta árs 3.875 milljarða króna í handbæru fé, sem jafnast á við landsframleiðslu Íslands í rúm tvö ár. Landsframleiðsla hér nam 1.630 milljörðum króna á síðasta ári.