Lítið lát virðist vera á gengisfalli hlutabréfa bandaríska tæknifyrirtækisins Apple. Það tók að síga á eftirmarkaði í gærkvöldi eftir að uppgör fyrir fjórða og síðasta ársfjórðung nýliðna árs var birt. Uppgjörið olli vonbrigðum þrátt fyrir metsölu á bæði iPad-spjaldtölvum og iPhone-farsímum. Lægri álagning á vörurnar var hins vegar sem þyrnir í augum fjárfesta. Eins og til að bæta gráu ofan í svart kom fram í uppgjörinu að eftirspurn eftir farsímum Apple hefur dregist nokkuð saman.

Gengi hlutabréfanna féll um 4% strax eftir að uppgjörið var birt. Þegar viðskipti með hlutabréf hófust á ný í dag hélt gengið áfram að síga og nemur gengishrunið nú 10,5%.

Markaðsverðmæti Apple nemur nú 431,85 milljörðum dala eða sem nemur rúmum 55 þúsund milljörðum íslenskra króna. Gengi bréfanna stendur nú í 459 dölum á hlut. Til viðmiðunar stóð gengi bréfa hæst í 705 dölum á hlut í september í fyrra. Síðan þá hefur virði fyrirtækisins á markaði lækkað um tæp 35%. Vb.is greindi frá því fyrr í dag að gengisfallið upp á síðkastið jafnist á við eina landsframleiðslu í Finnlandi .

Bandaríska fréttastofan CNN segir að helsta ástæðan fyrir gengisfallinu sé að bankar og matsfyrirtæki á borð Deutsche Bank og Morgan Stanley hafi endurskoðað verðmat sitt á Apple eftir að uppgjörið var birt. Nú hljóðar verðmat á hlutabréfum félagsins upp á 500 til 625 dali á hlut. Þá mun Morgan Stanley hafa tekið hlutabréf Apple af lista yfir þau sem mælt er með að fjárfestar kaupi.