Gengi bréfa Apple hefur lækkað um 3,13% það sem af er degi í kauphöllinni í New York. Er lækkunin rakin til galla í uppfærslu á iOS stýrikerfinu fyrir iPhone síma, en nýjasta uppfærslan gerði það að verkum að notendur iPhone 6 og iPhone 6 Plus gátu ekki hringt úr símum sínum.

Samkvæmt frétt BBC vinnur Apple að því að koma leiðréttri útgáfu af stýrikerfinu út, en á meðan geta eigendur símanna náð í eldri útgáfu af stýrikerfinu í gegnum iTunes. Gallaða uppfærslan var aðeins í umferð í um klukkustund í gær þar til henni var kippt út af Apple.

Hlutabréfavísitalan Dow Jones hefur lækkað um 1,26% í dag og Nasdaq vísitalan um 1,61%.