*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 2. september 2020 19:19

Gengi Apple og Tesla lækkar á ný

Miklum hækkunarfasa fyrirtækjanna virðist lokið en Apple hefur lækkað um nærri 7% frá hæsta punkti og Tesla um 11%.

Ritstjórn
epa

Tæknifyrirtækið Apple og rafbílaframleiðandinn Tesla hækkuðu bæði mikið í verði í kjölfar þess að fyrirtækin tilkynntu um að bréf félaganna yrði skipt í fleiri hluta sínum hvorum megin við nýliðna helgi.

En nú virðist sem gríðarlegur hækkunarfasi bréfa félagnna sé kominn á enda en gengi bréfa Apple hafa fallið um 2,55% það sem af er degi í dag, en hvert hinna nýju bréfa félagsins fæst nú á 130,76 dali þegar þetta er skrifað.

Það gerir 2,58% lækkun í dag, en hæst fór gengi bréfanna í 137,59 við lok viðskipta í gær, svo lækkunin síðan þá hefur numið 6,84%. Lækkun bréfa Tesla í dag hefur numið 6,71%, en þau eru komin í 442,85 dali þegar þetta er skrifað, en hæst fóru þau í gær í 502,16 dali, svo lækkunin síðan þá nemur 11,8%.

Þannig hækkuðu bréfin í Apple um nærri 40% frá því að tæknirisinn tilkynnti um það 30. júlí síðastliðinn að fjögur bréf myndu fást fyrir hvert þeirra frá föstudeginum síðasta, þann 28. ágúst. Bréfin í Tesla hækkuðu enn meira, eða um 70% frá því að tilkynnt var um að bréfunum yrði skipt upp 11. ágúst síðastliðinn, þangað til hún var framkvæmd á mánudaginn, 31. ágúst.

Ef horft er á árið í heild nemur hækkun bréfa Appla meira en 80%, meðan verðmætaaukning bréfa Tesla hefur numið 460%, eða nærri 6 földun á árinu og um tífallt ef horft er ár aftur í tímann.

Lækkunin á bréfum Tesla kom samhliða því að stærsti utanaðkomandi fjárfestirinn í félaginu, Baillie Gifford, lækkaði eignarhlut sinn úr 6,3% í undir 5%. Tesla hefur svo tilkynnt um að félagið muni bjóða ný bréf til sölu fyrir um 5 milljarða dala.