Hagnaður Bang & Olufsen fyrir skatta var 431 milljón danskra króna (5.226 milljónir íslenskra króna) á síðasta fjárhagsári, samanborið við 380 milljónir danskra króna (4.607 milljónir íslenskra króna) á sama tímabili í fyrra, sem er 13% aukning og í samræmi við væntingar félagsins, að er fram kemur í uppgjörsgögnum félagsins. Veltan nam 4.225,2 milljónum danskra króna (42.252 milljónum íslenskra króna), samanborið við 3.742,2 milljónir danskra króna (45.377 milljónir króna) á síðasta fjárhagsári.

"Tekjur félagsins á fjórða fjórðungi voru góðar en framlegðin olli vonbrigðum," segir Klaus Madsen, sérfræðingur hjá Handelsbanken. Uppgjörið var birt á mánudaginn og við það lækkaði gengi félagsins um 2,72% og í gær lækkaði gengið enn frekar, eða um 0,66%.

FL Group á 11,3% hlut í Bang & Olufsen, samkvæmt nýbirtu ársfjórðungs uppgjöri. Þann 17. febrúar var tilkynnt um fyrstu kaup FL Group í félaginu og nam eignarhluturinn 8,193% af heildarhlutafé. Þann dag var lokagengi Bang & Olufsen 744,25 danskar krónur á hlut en gengið hefur sigið niður og við lok markaðar í gær var það 605 danskar krónur á hlut, nemur lækkunin um 19% á tímabilinu.

Stjórn Bang & Olufsen mun mæla með að greiða arð til hluthafa sem nemur um 199 milljónum danskra króna (2.413 milljónir íslenskra króna). Auk þess hyggur hún á að kaupa eigin hluti fyrir um 300 milljón danskar krónur (3.637 milljónir króna) á næstu fjórðungum.